Kirkjuleg hjónavígsla er helgiathöfn þar sem tveir einstaklingar sem heimild hafa til hjúskapar biðja kærleiksríkan Guð að blessa hjúskap sinn og heita hvorum öðrum ævitryggðum, að eiga-, njóta- og þiggja saman yndi lífsins, gleði og sorgir.

Mikill meirihluti brúðkaupa fer fram í kirkju. Í kirkjunni skulu í það minnsta vera viðstaddir tveir vottar (svaramenn) en oftast eru mun fleiri gestir úr nánasta hópi brúðhjóna. Heimild er fyrir því að hjónavígsluathöfn geti farið fram á heimili, veislusal eða utanhúss.

Fyrir þau pör sem vilja lítið umstang er einnig í boði að ganga í hjónaband á virkum dögum endurgjaldslaust.

Könnunarvottorð

Áður en að hjónavígslu kemur verða hjónaefni að fá svokallað könnunarvottorð sem fæst hjá sýslumannsembættum. Hægt er að ganga frá því rafrænt og nauðsynlegt er að afhenda presti fyrir athöfnina. Könnunarvottorð gildir í 30 daga.

Athöfnin í kirkjunni

Dæmi um brúðkaupsathöfn:

  1. Forspil
  2. Bæn og ávarp
  3. Sálmur
  4. Ritningarlestur
  5. Sálmur fyrir hjónavígslu
  6. Hjónavígslan
  7. Sálmur eða tónlist eftir hjónavígslu
  8. Eftirspil

Tónlist

Í sálmabók Þjóðkirkjunnar má finna sálma sem hæfa tilefninu og má þar nefna sálma 365, 366, 368 (Ást – Sólin brennir nóttina) og 370.
Val á tónlist fer annars fram í spjalli við prest fyrir athöfnina enda hægt að velja ýmis lög og sálma.

Val á ritningartexta við hjónavígslu

Brúðhjónin velja tvo af eftirfarandi ritningarlestrum:

1) Íklæðist því eins og Guðs útvalin, heilög og elskuð börn hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hvort annað og fyrirgefið hvort öðru ef annað hefur sök á hendur hinu. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera. En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.
Látið frið Krists ríkja í hjörtum ykkar því að Guð kallaði ykkur til að lifa saman í friði sem limi í einum líkama. Verið þakklát.
(Kólossubréfið 3.12-15).

2) „Reyndu ekki að telja mig á að yfirgefa þig og hverfa frá þér því að hvert sem þú ferð þangað fer ég, og hvar sem þú náttar þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. Þar sem þú deyrð þar dey ég og þar vil ég verða grafin. Hvað sem Drottinn lætur fram við mig koma, þá skal dauðinn einn aðskilja mig og þig
(Rutarbók 1. 16-17).

3) Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
(Fyrra Korintubréf 13.4-8).

4) Hafið þið eigi lesið að skaparinn gerði þau frá upphafi karl og konu og sagði: Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og búa með konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður. Þannig eru þau ekki framar tvö heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“
(Matteusarguðspjall 19.4-6).

5) Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þið eruð mínir fylgjendur ef þér berið elsku hvort til annars
(Jóhannesarguðspjall 13.34-35).

6) Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var
(Filippíbréfið 2.1-5).

7) Settu mig sem innsigli á hjarta þitt, eins og innsigli á arm þinn, því að ástin er sterk eins og dauðinn hún er brennandi bál, skíðlogandi eldur. Vatnsflaumur fær ekki slökkt ástina, stórfljót ekki drekkt henni
(Ljóðaljóðin 8. 6-7).

Dagsetning

Skynsamlegt er að hafa sem fyrst samband við kirkjuna og prestinn þegar brúðhjón hafa valið daginn sinn.

Prestar Lindakirkju þjóna alla daga ársins en skipta helgarvöktunum á milli sín eins og hér segir.

dis@lindakirkja.is

gudni@lindakirkja.is

oli@lindakirkja.is