Ýmislegt hefur verið gert til þess að vekja athygli á lyftusjóð Lindakirkju síðustu árin, þar á meðal samkomur, auglýsingar og jafnvel kántrítónleikar.
Við höldum áfram þessu átaki okkar að vekja athygli á sjóðnum, og nú með nýju og skemmtilegu framlagi.
Starfsfólk Lindakirkju og fleiri góðir gestir hafa tekið þeirri áskorun að tímasetja sig hversu lengi þau eru að hlaupa upp kirkjuturninn. Þetta er hávaxinn turn, heilar sex hæðir og um 108 þrep. Hlaupið byrjar í kjallara kirkjunnar þar sem er dásamleg aðstaða fyrir barna- og æskulýðsstarf. Staðreyndin er sú að þau sem nota hjólastóla hafa ekki greiðan aðgang að þeirri aðstöðu. Hlaupið endar svo efst í turninum þar sem við sjáum dásamlegt útsýnið yfir Kópavogsbæ og nærumhverfi. Það er okkar einlæga ósk að öll þau sem koma í kirkjuna hafi aðgang að þessu útsýni þar sem sköpunarverkið blasir við.
Þessi turnahlaup eru öll tekin upp og birt á Facebook-síðu Lindakirkju.
Hann Guðni okkar Már var fyrstur til þess að ríða á vaðið og skaust upp á prýðilegum tíma. Dís og Danni fylgdu í kjölfarið, reyndar á aðeins verri tíma en þó nokkuð ánægð með sig.
Mánudaginn 24. mars birtist myndband af sérstökum heiðursgesti, en Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, tók áskorun okkar og hljóp upp turninn með glæsibrag. Við þökkum henni kærlega fyrir framtakið og fyrir að vekja athygli á lyftusjóðnum okkar.
Fylgist með á Facebook-síðu Lindakirkju á næstu vikum þegar ýmis andlit ætla að athuga hversu lengi þau eru að fara alla leið upp í turn.
Lyftum okkur upp!
Við hvetjum öll þau sem geta að styrkja lyftusjóð Lindakirkju:
537-14-7079
kt: 550302-2920
Við bendum líka á að kirkjan er á almannaheillaskrá Skattins og eru því gjafir og styrkir til hennar frádráttarbær frá skatti.
Á meðfylgjandi mynd má sjá ástandið á Guðna þegar hann var búinn að hlaupa upp.
Hér má horfa á biskup Íslands hlaupa turninn:
