Alfa er 10 vikna námskeið um kristna trú. Fjallað er á einfaldan og þægilegan hátt um grundvallaratriði kristinnar trúar og boðskap Biblíunnar. Með virkri þátttöku námskeiðsgesta er leitast við að svara mikilvægustu spurningum lífsins, spurningum sem allir spyrja sig einhvern tímann á lífsleiðinni en hafa kannski ekki náð að svara fyrir sitt leyti. Alfa styðst við bók Nicky Gumbel; Spurningar lífsins (e. Questions of Life). Umgjörð námskeiðsins er afslöppuð og þægileg og ekki eru lagðar kröfur á þátttakendur um viðhorf, skoðanir eða afstöðu. Upplifun hvers og eins af námskeiðinu er ávallt mjög persónuleg. Hver og einn dregur sinn lærdóm. Námskeiðið er jafnaði haldið einu sinni í viku. Hvert kvöld hefst á léttum kvöldverði kl. 19. Síðan er kennsla í um 45 mínútur og eftir stutt hlé eru umræður í litlum hópum. Námskeiðinu lýkur kl. 22. Á miðju námskeiðinu er farin helgarferð úr bænum. Kvöldvaka og notalegheit til að fólki líði vel. Helgin er valkvæð fyrir þátttakendur og þarf að greiða fyrir hana sérstaklega (gisting og fullt fæði). Teknir eru 3-4 fyrirlestrar um þessa helgi og m.a. fjallað sérstaklega um Heilagan Anda og hvernig hann starfar. Ef tekið er mið af áliti þátttakenda fram að þessu þá stendur þessi helgi uppúr hvað varðar upplifun og ánægju með námskeiðið. Alfa námskeiðið er opið fyrir alla. Ekkert þátttökugjald er á Alfa, þ.e. fyrir námskeiðið sjálft og fyrirlestrana. Aðeins er greitt 1300 kr fyrir matarkostnaðinn fyrir hvert skipti. Síðan er greitt sérstaklega fyrir Alfa-helgina en kostnaði við hana er haldið í lágmarki. Mörg stéttarfélög og verkalýðsfélög veita styrki til að sækja námskeið eins og Alfa. Alfa hefst í Lindakirkju Kópavogi 20. janúar 2015. Hægt er að kynna sér Alfanámskeiðin á alfa.is … Skráning á lindakirkja@lindakirkja.is. Þú ert hjartanlega velkominn.