Útför Ölmu Guðrúnar Frímannsdóttur, ritara sóknarnefndar og kennara fer fram frá Lindakirkju í dag. Alma lést á líknardeild Landspítalans þann 3. mars síðastliðinn.
Alma var einstaklega hlý og gefandi og er hennar sárt saknað. Hún var í mörg ár ritari sóknarnefndar og afar áhugasöm um starfið okkar og alltaf boðin og búin að leggja sitt af mörkum. Hún kom ósjaldan með barnabörnin í sunnudagaskólann, sótti messur og aðstoðaði við ýmsa viðburði í kirkjunni. Hún hjálpaði fermingarbörnunum í kyrtlana fyrir fermingar, var sjálfboðaliði á kirkjudögum ogkom reglulega við í kirkjunni í spjall og var ávalt styðjandi við allt starfsfólk kirkjunnar.
Alma vildi alltaf bæta starf kirkjunnar og lagði til margar góðar hugmyndir og hafði skoðanir á málum. Hún hafði gott lag á að setja skoðanir sínar fram með móðurlegri hlýju.
Við í Lindakirkju viljum þakka Ölmu fyrir góð störf í þágu kirkjunnar og ekki síst fyrir frábæra vináttu. Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til eiginmanns hennar, sona og fjölskyldu. Blessuð sé minning Ölmu Guðrúnar Frímannsdóttur.
Við látum orð Orðskviða Biblíunnar fylgja með:
,,Kærleikur og tryggð munu aldrei yfirgefa þig. Festu þau um háls þér og ritaðu þau á spjald hjarta þíns.“
Orðskviðir. 3:3
Sóknarnefnd og starfsfólk Lindakirkju.
